154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[11:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við gætum kannski við annað tilefni tekið almenna umræðu um það hvernig við ættum að láta bætur almannatrygginga taka breytingum milli ára. En minn punktur hér er sá að við höfum með sérstökum hækkunum á miðju ári tryggt að bæturnar hafa haldið í við verðlag og meira að segja gott betur á þessu ári eins og ég vék að. Hitt er síðan allt önnur umræða, eins og ég hef áður komið inn á í dag, hvort við eigum að miða við eitthvað annað heldur en verðbólgu eða umsamdar kjarabætur á vinnumarkaði. En það er nú það sem lagatextinn gengur út á í dag að eigi að vera viðmiðið. Mig langar að bera undir hv. þingmann annað sem hann kom inn á hérna varðandi leigubremsuna. Hafnar hv. þingmaður þeim kenningum fræðimanna um að ef settar eru of strangar hömlur á útleigu húsnæðis þá muni draga úr framboði þess? Nú er ég talsmaður séreignarstefnunnar, af því að hv. þingmaður kallaði eftir því, og ég veit að langflestir Íslendingar vilja eignast eigið húsnæði. En ef þeir hafa ekki efni á að kaupa sitt eigið húsnæði er þá skynsamlegt að vera með ráðstafanir sem draga líka úr framboði á leiguhúsnæði?